top of page

Tjásafn í Esjuhlíðum

trja_safn-12.jpg

Trjásöfn eru af ýmsum stærðum og gerðum. Hér á landi þekkjum við aðallega fremur litla reiti þar sem eru til sýnis mismunandi trjátegundir og er þeim yfirleitt viðhaldið af einstaklingum eða stofnunum. Erlendis eru starfandi miklu stærri trjásöfn eða arboret sem stundum þekja nokkur hundruð hektara lands. Slík arboret eru eðlilega nokkuð ólík litlu söfnunum og eru yfirleitt rekin sem meira eða minna sjálfstæðar stofnanir. Starfsemi þeirra snýst um rannsóknir, ræktun og fræðslu auk þess sem þau eru mikilvæg útivistarsvæði þar sem hægt er að eyða heilu dögunum í skoðunar- og gönguferðir.

Frá stofnun Trjáræktarklúbbsins 2004 hefur það verið draumur meðlima hans að stofna slíkt arboret á Íslandi. Ekki er nauðsynlegt að það þeki mörghundruð hektara eins og mörg erlend söfn enda er úrval þeirra tegunda sem við getum notað nokkuð takmarkaðra en í suðlægari löndum. En 20 ha myndu duga vel. Frá upphafi hefur verið náið og gott samstarf milli klúbbsins og Rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá sem hefur orðið til þess að fengist hefur vilyrði fyrir 20 ha svæði undir safnið í Esjuhlíðum. Sjá UPPDRÁTT AF ARBORETINU. Kjarni þess eru gömlu túnin sem blasa við þegar ekið er um Kollafjörð. Kerfill hefur nú lagt þau undir sig þannig að þau skera sig vel úr skóginum allt í kring. 

Arboretsnefnd klúbbsins hefur nú hafðið vinnu við að skipuleggja safnið en í henni sitja Aðalsteinn Sigurgeirsson (fagmálastjóri Skógræktarinnar), Sigurður Guðmundsson og Axel Kristinsson (formaður). Til að arboret nýtist sem best þarf að raða trjám þess upp með kerfisbundum hætti. Tvær aðferðir hafa einkum verið notaðar til þess. Annars vegar er hægt að raða þeim eftir ætterni þannig að skyldar tegundir, ættkvíslir og ættir standi saman. Þetta er algengasta aðferðin og meðal annars notuð í Arnold Arboretum í Boston. Ekki halda menn sig alltaf nákvæmlega við þessa aðferð en auk þess hafa hugmyndir um skyldleika oft breyst með meiri rannsóknum og þá er ekki auðvelt að færa til tré til að endurspegla nýrri þekkingu. Hin aðferðin er að miða við upprunastað en Tervuren í Belgíu er eitt frægasta dæmið um það. Þá er safnað saman trjám, stundum líka runnum og botngróðri, frá sama svæði og þau látin standa saman. Þá er jafnvel reynt að endurgera gróðurfar upprunastaðarins. Arboretið skiptist þá upp í reiti sem geta verið helgaðir Japan, Himalaja-fjöllum eða Alaska.


Það vafðist um hríð fyrir nefndinni hvaða leið ætti að fara við skipulag safnsins en á endanum varð það úr að leggja til að safninu sé skipt í tvennt og búa bæði til tegundasafn, þar sem miðað er við skyldleika, og svæðasafn, þar sem farið er eftir uppruna. Hugmyndin er að leggja aðalgöngustíg safnsins (dökkrauður á myndinni) í hring sem þá skiptir því um leið í tvennt, innan og utan hringsins.

Hringurinn hefst í vesturenda safnsins þar sem gert er ráð fyrir bílastæði gesta, Nokkur bratti er syðst á svæðinu og því þótti heppilegast að hægt væri að aka upp brekkuna í stað þess að hefja skoðunarferðina á því að erfiða upp í móti. Innan hringsins eru aðallega gömlu túnin þar sem lítið hefur enn verið gróðursett. Það hentar vel fyrir svæðasafnið því ekki er hægt að hafa tré frá Alaska á svæði sem er helgað Alpafjöllum og ekki vill fólk fella tré nema brýna nauðsyn beri til. Samkvæmt þessum tillögum er gert ráð fyrir átta svæðum í upphafi: S-Alaska, Nýfundnalandi, S-Patagóníu (með Eldlandi), N-Klettafjöllum, Skandinavíu (sem hér er aðallega V- og N-Noregur), Alpafjöllum, Himalajafjöllum og fjallgarðar í SV-Kína (einkum Hengduan). Nóg svigrúm er skilið eftir til að bæta við fleiri svæðum síðar. Auk þess er gert ráð fyrir miðsvæði með aðstöðu fyrir Trjáræktarklúbbinn þar sem einnig er lögð áhersla á tegundir sem hafa sannað sig á Íslandi eða hafa verið aðlagaðar okkar aðstæðum. Eftir endilöngu svæðasafninu er reiknað með þjónustubraut sem hægt er að nota til að koma að tækjum og vinnuvélum en þarna er þegar nothæfur slóði.

Utan hringsins er reiknað með tegundasafni þar sem skyldleiki ræður staðsetningu. Hér er víða kominn skógur og gott skjól fyrir viðkvæmari tegundir. Frá bílastæðinu er hægt að fara í tvær áttir. Ef haldið er upp hlíðina sér fólk berfrævinga en af þeim er það aðeins musteristré (Ginkgo biloba) sem ekki tilheyrir barrtrjám en reyndar er mjög óvíst að það þrífist hér. Þarna er annars fyrst þallarættin með öllum okkar mikilvægustu barrtrjám, greni, furu, lerki o.s.frv. Síðan koma sjaldgæfari barrviðir sem enda með sýprisættinni. Dulfrævingar mæta fólki ef haldið er niður hlíðina. Ein grein þeirra er einkímblöðungar en þar finnast engin dæmigerð lauftré en þó plöntur sem líkjast venjulegum trjám eins og bambusar og pálmar og er þeim ætlaður staður neðst og næst sjó þar sem ætla má að veðurfar sé mildast. Lauftré raða sér síðan eftir skyldleika um allan suður- og austurhlutann. Lyngrósir (Rhododendron), Askar (Fraxinus), Linditré (Tilia) og Hrossakastaníur (Aesculus) svo eitthvað sé nefnt, bætast í skjólgóða skógarlundi undir brekkubrún á suðurmörkunum. Hlynir eru þar austan við og síðan víðir og ösp. Í norðausturhorninu, í Kálfsdal verður birkiættin með björk, elri, hesli og jafnvel agnabeyki ná það að þrífast. Hin stóra rósaætt tekur við í vestri en hringum lokar álmsættin þar sem hún mætir sýprisættinni.


Þetta eru frumhugmyndir um skipulag Trjásafnsins. Þær eru alls ekki endanlegar og margt getur breyst. Vegferðin við að byggja upp íslenskt arboret er rétt að hefjast. Hér er kynning um Arboret í Esjuhlíðum flutt á aðalfundi klúbbsins 2018.

bottom of page